Frístundir

Njóttu lífsins í þínum frítíma

til baka á forsíðu

Á Akureyri hefur þú tíma til að sinna þínum áhugamálum. Líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, kórar, fjölbreyttar göngu- og hjólaleiðir, siglingaklúbbur, skíðasvæði, hesthúsahverfi, Skautahöll, söfn og margt fleira er innan seilingar. Fjöllin, fjörðurinn og skóglendið í kring heilla útivistarfólk.

Baðstaðir

Hefur þú prófað Flækjuna? En Trektina? Sundlaug Akureyrar er að margra mati skemmtilegasta sundlaug landsins – fyrir alla aldurshópa. Þar er líka frábær sundaðstaða, rúmgóðir heitir pottar og gufubað.

Glerárlaug er lítil innilaug með útipottum en Akureyringar sækja líka laugarnar í Hrafnagili og á Þelamörk í um tíu mínútna fjarlægð sem eru sérstaklega vinsælar meðal fjölskyldufólks. Einnig má nefna laugarnar í Hrísey og Grímsey sem tilheyra Akureyrarbæ.

Skógarböðin við rætur Vaðlaheiðar gengt Akureyri eru nýjasta djásnið í afþreyingu og afslöppun. Þar er heita vatnið úr Vaðlaheiðagöngunum nýtt til að skapa einstaka baðaðstöðu í friði og ró með útsýni yfir Eyjafjörðinn sem mun án efa laða að bæði heimafólk og ferðamenn.

Lesa meira

Gönguleiðir

Uppgötvaðu leyndar perlur í og í kringum Akureyri. Kannaðu fuglalífið við Leirurnar og í Krossanesborgum, röltu um Lystigarðinn og skoðaðu einstakt plöntusafn, njóttu kyrrðarinnar innan um há tré í Kjarnaskógi og í Naustaborgum. Gakktu inn í Glerárdal, upp á Fálkafell eða Súlur og horfðu út Eyjafjörðinn. Fleiri stórkostlegar gönguleiðir eru í nánasta umhverfi. Úr Öxnadal er stutt ganga að Hraunsvatni við rætur Hraundranga í stórkostlegri náttúrufegurð.

Lesa meira

Vetraríþróttir

Hlíðarfjall er vinsælasta skíðasvæði landsins – og ekki að ástæðulausu. Þar opnar snemma og lokar seint, þar eru brekkur við allra hæfi, gönguskíðabraut og nægur snjór. Þar geta vanir skíðað utan brautar og stundum rennt sér alveg niður í bæ. Það tekur innan við tíu mínútur að keyra upp í fjall. Hin skíðasvæðin á Norðurlandi eru í þægilegri akstursfjarlægð. Á sumrin er fjallahjólagarður opinn í Hlíðarfjalli!

Vinsældir fjallaskíða eru sífellt að aukast en í nánd við Akureyri eru kjöraðstæður fyrir fjallaskíðamennsku sem jafnvel er hægt er að stunda fram í júní. Margir renna sér á gönguskíðum í Kjarnaskógi, aðrir bruna á snjósleða eða ganga á snjóþrúgum í fallegu umhverfi á Eyjafjarðarsvæðinu.

Lesa meira