Atvinna

Sterkt og framsækið atvinnulíf

til baka á forsíðu

Á Akureyri er rótgróið atvinnulíf með traustar grunnstoðir, stöðugt vinnuafl og lága starfsmannaveltu. Atvinnuöryggi er eitt af þeim atriðum sem skipta mestu máli varðandi áframhaldandi búsetu á tilteknum svæðum samkvæmt búsetukönnun landshlutanna. Atvinnuöryggi mælist dálítið yfir meðallagi á Akureyri og er sérstaklega hátt hjá aldurshópnum 18-34 ára. Fjölbreytni atvinnulífsins skorar mjög hátt og er Akureyri í hópi þeirra svæða þar sem atvinnuúrval er talið mest. Atvinnurekendur finna fyrir jákvæðni og velvild bæjarfélagsins gagnvart atvinnurekstri.

Fimm stærstu atvinnugreinarnar á Akureyri árið 2018, samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar sem byggir á atvinnutekjum íbúa, voru heilbrigðis- og félagsþjónusta, fræðslustarfsemi, iðnaður, verslun og mannvirkjagerð.

Nýsköpun

Mikið nýsköpunarstarf fer fram á Akureyri. Sjávarútvegsfyrirtæki bæjarins eru með þeim stærstu á landinu og notast þau við nýjustu tækni í sínum iðnaði. Önnur matvælaframleiðsla stendur styrkum fótum með öflugar kjötvinnslur í broddi fylkingar.

Eimur er þróunar- og nýsköpunardeild svæðisins á sviði sjálfbærni, grænnar orku og bættrar auðlindanýtingar.

Sumarið 2021 hófst vinna við uppbyggingu vísinda- og tæknigarða við Háskólanná Akureyri í samstarfi við vísindafólk og einkafyrirtæki að fyrirmynd Grósku hugmyndahúss í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Lesa meira

Störf án staðsetningar

Undanfarin misseri, fyrir tilstuðlan Covid-19 faraldursins, hefur orðið mikil hugarfarsbreyting varðandi störf sem eru óháð staðsetningu. Slíkum störfum hefur fjölgað, bæði hjá opinberum stofnunum og einkaaðilum, og er það markmið stjórnvalda að svo verði áfram, meðal annars til að styðja við dreifðari byggðir þar sem atvinnutækifæri fyrir menntað fólk hafa verið af skornumskammti. Stefna stjórnvalda, samkvæmt gildandi byggðaáætlun, er að árið 2024 verði að lágmarki 10% starfa á vegum ríkisins auglýst án staðsetningar.

Á sama tíma hafa svokallaðir „stafrænir flakkarar“ (e. digital nomads) rutt sér til rúms alþjóðlega, fólk sem getur í krafti sveigjanleika og nútímatækni sinnt störfum sínum hvar sem er í heiminum. Það kýs að ferðast, dvelja og vinna á ýmsum stöðum til skemmri og lengri tíma. Byggðastofnun hefur nýlega tekið í notkun gagnagrunn sem sýnir mögulegt skrifstofuhúsnæði fyrir störf án staðsetningar á landsbyggðinni og er stefnt að því að opinberir aðilar vísi til gagnagrunnsins þegar störf eru auglýst.

Lesa meira